Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps vertu velkomin/n á heimasíðu félagsins

Fréttir 2014

22. nóv. 2014

 Í dag fór Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps í bráðskemmtilega skoðunarferð á Strandir. Lagt var af stað klukkan að ganga níu í björtu en fremur svölu veðri, sem hélst allan daginn. Um kl. 13 var svo komið í Sauðfjársetrið, þar sem beið okkar framúrskarandi lambasteik. Eftir að hafa matast og skoðað sig um í Sauðfjársetrinu var ekið að fyrsta sauðfjárbúinu sem skoðað var. Alls voru skoðuð 5 bú og var okkur allsstaðar tekið með miklum myndarskap og áttum við ánægjulegar samræður við ábúendur. Viðkomustaðirnir voru: Tröllatunga, Miðdalsgröf, Heydalsá (tvö bú) og Broddanes. Gaman var að skoða mismundi fjárhús og aðstöðu í þeim og svo að sjálfsögðu fallegar og vel ræktaðar kollóttar Strandakindur. Allir vorum við ferðalangarnir sammála um að þetta hefði verið góður dagur og í alla staði vel heppnuð ferð. Við ferðuðumst á bíl frá Bílaleigu Akureyrar og sá undirritaður um að aka henni. Að endingu er svo ljúft og skylt að þakka fólkinu á Ströndum fyrir frábærar móttökur og viðurgjörning allan.               GTS

Hér má svo sjá fleiri myndir http://saudur.123.is/photoalbums/269984/  

15. nóv. 2014

Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps hefur ákveðið að fara í skoðunar- ferð á Strandir laugardaginn 22. nóvember nk.

Lagt verður af stað frá Melum kl 8:30

Áætlað er að snæða hádegisverð í Sauðfjársetrinu kl. 12:30, þar sem boðið verður upp á lambalæri auk viðeigandi meðlætis.

Að því búnu verða skoðuð eftirtalin sauðfjárbú:

Tröllatunga, Miðdalsgröf, Heydalsá og Broddanes. Auk þess að skoða fallegt fé á þessum bæjum eru nýleg fjárhús á sumum þeirra, sem áhugavert verður að skoða.

Áætlað er að fargjald með hádegisverði verði á bilinu 6- til 8 þúsund krónur, sem hver þátttakandi þarf að greiða, fer upphæðin eftir því hversu margir fara í ferðina.

Tilkynna þarf um þátttöku til stjórnar félagsins fyrir   kl. 20:00 þriðjudaginn 18. nóvember nk.   

Stjórn Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps.

GTS

17. mars 2014 

Í kvöld héldu félagar í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps upp á 50 ára afmæli félagsins ásamt gestum að Melum í Hörgárdal. Alls skrifuðu 59 í gestabók, sem er ágæt mæting í félagi, sem telur  24 félaga. Gestir voru vítt og breitt að, auk Eyfirðinga voru þeir úr Þingeyjarsýslum, Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu.

Guðmundur Skúlason á Staðarbakka ritari félagsins setti afmælishófið og bauð gesti velkomna.

 

Birgir Arason bóndi Gullbrekku og formaður Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð tók svo við stjórn samkomunnar.

Var nú gengið til dagskrár og flutt erindi:

Guðmundur Skúlason bóndi Staðarbakka fór yfir sögu félagsins og ræddi sauðfjárrækt frá sjónarhóli bónda.

 

Ólafur G Vagnsson ráðunautur, fór yfir þróun sauðfjárræktar á sinni starfsævi, sem er nánast sama tímabil og saga félagsins nær yfir.

 

Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður sauðfjárræktarinnar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, ræddi stöðu sauðfjárræktar í nútíð og framtíð.

Að loknum erindunum bauð svo félagið upp á veislukaffi, sem foreldrar nemenda í 8. og 9. bekk Þelamerkurskóla sáu um fyrir ferðasjóð nemenda. 

Formaður nágrannafélagsins, Sauðfjárræktarfélagsins Neista, Helgi Steinsson færði félaginu þennan fallega blómvönd og góðar óskir í tilefni 50 ára afmælisins.

Þessi hálfrar aldar hátíð félagsins tókst vel og var gaman að koma saman til að ræða og hugsa um sauðkindina eina kvöldstund og horfa yfir farinn veg og til framtíðar.

Fleiri myndir má sjá hér http://saudur.123.is/photoalbums/258938/

Gestabók

 

Stórn Sf. Skriðuhrepps sótti um styrki til að fjármagna afmælishátíðina. Eftirtaldir styrktu hana: Hörgársveit, Kjarnafæði og SAH Afurðir. Þeim eru hér með færðar bestu þekkir fyrir stuðninginn.

GTS

 

6. mars 2014, auglýsingenlightened 

Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps 50 ára

Þann 17. mars nk. verða liðin 50 ár frá stofnun Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps. Af því tilefni efnir félagið til afmælissamkomu að Melum í Hörgárdal þann 17. mars nk. kl 20:00. Annars vegar er þessi samkoma hugsuð sem ráðstefna, þar sem flutt verða erindi um sauðfjárrækt og hins vegar sem afmælishátíð.

Þeir sem flytja erindi eru:

  1. Guðmundur Skúlason bóndi Staðarbakka fer yfir sögu félagsins og ræðir sauðfjárrækt frá sjónarhóli bónda.
  2. Ólafur G Vagnsson ráðunautur, fer yfir þróun sauðfjárræktar á sinni starfsævi, sem er nánast sama tímabil og saga félagsins nær yfir.
  3. Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður sauðfjárræktarinnar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, ræðir stöðu sauðfjárræktar í nútíð og framtíð.

Að loknum erindunum bíður svo félagið öllum upp á veglegt afmæliskaffi.yes

Ráðstefnu- og veislustjóri verður Birgir Arason, formaður Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð.

Samkoman verður opin öllu áhugafólki um sauðfjárrækt og er það von stjórnar félagsins að sem flestir sjái sér fært að mæta á þennan afmælisfagnað félagsins.smiley

Stjórn Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps.

 

16. febr. 2014

Nú er fundargerð aðalfundarins þann 28. janúar sl. komin hér inn á heimasíðuna og einnig fundargerð frá stjórnarfundi sem haldinn var þann 6. febrúar sl. þær má málgast undir flipanum fundargerðir. Ákveðið var á stjórnarfundinum að halda samkomu á Melum þann 17. mars nk. í tilefni þess að þann dag eru 50 ár liðin frá því að félagið var stofnað á Myrkárbakka. Hér að neðan má sjá upphaf fyrstu fundargerðarinnar.

Í stórum dráttum er afmælissamkoman á Melum hugsuð þannig að þar verði flutt erindi um sauðfjárrækt og á eftir þeim verði boðið upp á kaffiveitingar. Samkoman á að vera opin öllu áhugafólki um sauðfjárrækt. Strax og komin verður skýrari mynd á dagskrána veður það auglýst hér á heimasíðunni og víðar.

GTS

 

28. jan. 2014

Í kvöld var aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps haldinn á Ytri Bægisá ll. Það var allvel mætt eða 11 af 24 félögum. Þetta var í raun aðalfundur fyrir tvö ár þar sem fundurinn í fyrravetur féll niður. Farið var yfir niðurstöður úr skýrsluhaldi félagsmanna. Auk þess var rætt um hvað best væri að gera í tilefni af 50 ára afmæli félagsins þann 17. mars nk. og um fleira sem æskilegt væri í félagsstarfinu. Breytingar urðu á stjórn félagsins, þar sem þeir Guðmundur á Þúfnavöllum og Viðar í Brakanda gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Í þeirra stað voru kjörnir Stefán Lárus á Ytri Bægisá og Gestur Hauksson. Tveir nýir félagar bættust í hópinn, þau Áslaug Ólöf Stefánsdóttir og Oddgeir Sigurjónsson, bændur á Myrká. Þá voru að venju veitt verðlaun fyrir hæst stigaða lambhrút félagsmanna á næst liðnu hausti. Að þessu sinni hreppti  Gestur Hauksson þau fyrir hrútinn Þór 13-303, sem stigaðist uppá 87 stig. Nánar um fundinn má svo sjá í fundargerðinni sem verður birt hér á heimasíðunni fljótlega. 

Hér má sjá Guðmund á Þúfnavöllum fráfarandi formann, flytja tölu yfir fundarmönnum og greinilegt er að Oddgeir á Myrká er djúpt hugsi yfir henni.
Þór 13-303 hæst stigaði lambhrútur innan félagsins haustið 2013. Hann er eins og fyrr segir í eigu Gests Haukssonar. Þór er tvílembingur og vó 54 kg. Ómtölur hans voru þessar: 31 mm ómv. 1,6 mm ómf. og 3,5 óml. Fótleggur er 110 mm. Stigun hans var: Haus 8,0 - h/h 9,0 - b/útl. 9,0 - bak 9,0 - malir 9,0 - læri 18,5, ull 8,0 - fætur 8,0 og samræmi 8,5 = 87,0 stig. Fjárvís einkunn hans er 203,9. Þór 13-303 er undan Grábotna 06-833 og Þóru 08-825. 
Hér er Guðmundur formaður búinn að afhenda Gesti farandbikarinn og verðlaunapeninginn.

GTS

27. jan. 2014

Nú er búið að setja allt uppgjör úr skýrsluhaldi félagsmanna fyrir skýrsluárið 2012 - 2013 hér inn á heimasíðuna.

GTS

 

19. jan. 2014 

Tilkynning: 

  Aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps verður haldinn þriðjudaginn 28. janúar nk. á Ytri-Bægisá 2 kl. 20:30. 

  Venjubundin aðalfundarstörf. Þá verður afhentur bikar félagsins fyrir hæst stigaða lambhrút innan félagsins haustið 2013.

  Þar sem aðalfundur félagsins 2013, fyrir árið 2012 féll niður, verður þetta aðalfundur fyrir árin 2012 og 2013. Kjósa þarf því tvo í stjórn; annan til tveggja ára og hinn til þriggja ára. Kjósa þarf í stað Guðmundar Sturlusonar og Viðars Þorsteinssonar, en þeir hafa báðir lýst því yfir að þeir biðjist undan endurkjöri.

  Mætum öll og ræðum félagsstarfið og annað sem félagsmönnum liggur á hjarta t.d. hvað til greina kemur að gera í tilefni af 50 ára afmæli félagsins þann 17. mars 2014.

      Stjórnin.

Flettingar í dag: 618
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 320
Gestir í gær: 5
Samtals flettingar: 50759
Samtals gestir: 12059
Tölur uppfærðar: 16.5.2024 20:43:57
clockhere

Um félagið

Nafn:

Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps

Farsími:

Unnar Sturluson 779-0269 formaður

Afmælisdagur:

Stofnað 17. mars 1964

Heimilisfang:

Þúfnavellir

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Unnar Sturluson 462-6754 formaður

Um:

Vef- og ritstjóri heimasíðunnar er Guðmundur Skúlason s. 846-1589

Kennitala:

431008-1650

Bankanúmer:

566-04-250446

Tenglar