Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps vertu velkomin/n á heimasíðu félagsins

Úr gerðabók 1998 - 2003

Síðari hluti Gerðabókar númer tvö hjá Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps



























    Aðalfundur haldinn að Barká 12. desember 2000.

Viðar Þorsteinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna en 9 félagar eru mættir auk Ólafs Vagnssonar. Sérstaklega bauð hann velkomin í félagið Gunnar og Doris í Búðarnesi en þau skiluðu skýrslu í fyrsta sinn í haust. Einnig gat Viðar þess að einn félagi hefði látist á árinu, Páll Ólafsson í Dagverðartungu og bað hann menn að rísa úr sætum í virðingarskyni við hinn látna. Viðar las síðan dagskrá fundarins en hún er svohljóðandi: 

    1.Fundarsetning. 
    2.Kosning fundarstjóra og fundarritara. 
    3.Yfirlit stjórnar og reikningar. 
    4.Yfirlit Ólafs Vagnssonar. 
    5.Önnur mál. 
    6.Kosningar: 
    1) Einn í stjórn til 3 ára í stað Viðars Þorsteinssonar. 
    2) Varam. í stjórn til 1 árs í stað Árna Arnsteinssonar. 
    7.Fundarslit.

  2. Viðar Þorsteinsson kvaðst stjórna fundi en bað Gest Hauksson að rita fundargerð.

  3. Viðar Þorsteinsson flutti skýrslu formanns um starfsemi frá síðasta aðalfundi.
Starfsemin á árinu var ekki mikil, til að mynda engin formlegur stjórnarfundur haldinn.
5.apríl var haldið námskeið í notkun á Fjárvís, í Brakanda. Mættir voru aðilar frá þeim 3 bæjum er skila á tölvutæku formi, þ.e. frá Staðarbakka, Þríhyrningi og Brakanda. Ólafur G.Vagnsson og María Sv. Jónsdóttir ráðunautar mættu og skýrðu ýmsa notkunarmöguleika Fjárvísar.
15.apríl var farið í ferðalag vestur í Dali og á Snæfellsnes, að skoða fé og fjárhús, í samvinnu við fjárræktarfélagið Neista í Glæsibæjarhreppi og Öxnadal. Farið var á 40 manna rútu og sá Klængur á Hlöðum um aksturinn. Lagt var af stað frá Melum kl.8.30. 12 manns af okkar svæði fóru í ferðina þar af 9 félagsmenn. Snæddur var hádegisverður á Brú í Hrútafirði og þangað kom Lárus G.Birgisson ráðunautur á vesturlandi, til móts við hópinn. Síðan var farið að Lambeyrum í Laxárdal, því næst að Berserkseyri og í Mávahlíð á norðanverðu Nesinu og endað á Hjarðarfelli sem er sunnan á Nesinu. Lárus skilinn eftir í Borgarnesi og síðan snæddur kvöldverður á Brú undir miðnætti. Heim var komið síðla nætur. Ólafur G. Vagnsson hafði veg og vanda að skipulagningu ferðarinnar og voru honum færðar bestu þakkir fyrir.
Viðar gaf síðan Hermanni Jónssyni orðið um reikninga félagsins.
Tekjur: 40.817 kr., tekjur umfram gjöld 1.689 kr.
Hrein eign félagsins 30.11.2000: 638.281 kr.
Reikningar samþykktir samhljóða.

  4. Ólafur Vagnsson fór yfir yfirlitskýrslu félagsins ´99-´00.
Meðalafurðir þær hæstu sem nokkru sinni hefur verið í sögu félagsins eða 31,8 kg. eftir hverja á. Frjósemi einnig mjög góð, 190 lömb fædd en 176 lömb til nytja eftir hverjar 100 ær. Mestu afurðir hjá Sigurði Viðarssyni Brakanda, 12 ær skila að jafnaði 40.9 kg.
Guðmundur Skúlason gerði athugasemd við yfirlitsskýrslu, taldi að reiknaður kjötþungi væri ofreiknaður miðað við raunverulegan fallþunga.
Ólafur útskýrði tölur og einkunnir hrúta út úr kjötmati.
Talsverðar umræður urðu um niðurstöður úr skýrsluhaldinu.
Reiknaður kjötþungi er miðaður við blautvigt en fallþungi á okkar svæði er þurrvigt sem er um 2% lægri en blautvigt.
Kaffihlé var gert á fundinum og þegnar veitingar.

  5. Önnur mál: Guðmundur Skúlason nefndi að nöfn á veturgömlu fé skilaði sér ekki úr vorbók sem send væri í uppgjör, í haustbók.
Ákveðið að félagið greiddi sem svaraði kostnaði við svampa og sæðingu í 15% af ásettum fullorðnum ám félagsmanna, haustið 2000.

  6. 1)Viðar Þorsteinsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þór Jónsteinsson kosinn til 3 ára með   4 atkvæðum.
2) Árni Arnsteinsson endurkosinn til eins árs.

 7. Viðar Þorsteinsson þakkaði Ólafi Vagnssyni fyrir, sem og öðrum fundarmönnum og sleit síðan fundi. 

    -------------------------- 
    Gestur Hauksson 
    fundarritari. 


    Stjórnarfundur haldinn í Brakanda 15. mars 2001 

Stjórn kom saman til fundar í Brakanda 15.mars 2001 til að skipta með sér verkum. Þór Jónsteinsson formaður, Hermann Jónsson gjaldkeri og Gestur Hauksson ritari.
Aðeins rætt um gæðahandbók í sauðfjárrækt. 

    ----------------------- 
    Gestur Hauksson. 


    Aðalfundur haldinn í Þríhyrningi 12. desember 2001.

Þór Jónsteinsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, 12 félagar mættir auk Ólafs G. Vagnssonar. 
    Svohljóðandi dagskrá lá fyrir fundinum: 
    1. Fundarsetning 
    2. Kosning fundarstjóra og fundarritara 
    3.Yfirlit stjórnar og reikningar 
    4. Yfirlit Ólafs G. Vagnssonar 
    5.Önnur mál 
    6. Kosningar: 
    1) Einn í stjórn til 3ja ára í stað Hermanns Jónssonar 
    2) Varamaður í stjórn til 1 árs í stað Árna Arnsteinssonar 
    3) Skoðunarmaður reikninga til 2ja ára í stað Hauks Steindórssonar 
    7.Fundarslit

  2. Þór Jónsteinsson kosinn fundarstjóri og Gestur Hauksson fundarritari.

  3. Þór flutti skýrslu stjórnar sem var frekar stutt, þar sem lítið var um að vera á árinu, aðeins var bókaður einn stjórnarfundur.
Hermann Jónsson fór yfir reikninga félagsins.
Gjöld alls kr. 127.328, gjöld umfram tekjur kr.81.708.
Hrein eign 30.11.2001 kr. 556.573.
Reikningar samþykktir samhljóða.

  4. Ólafur Vagnsson fór yfir yfirlitskýrslu félagsins 2000-2001. Afurðir eftir ána ívið lægri haustið 2001 en árið áður, 30,7 kg. á móti 31,8 kg haustið 2000. Mestar afurðir eftir hverja á, var hjá Gunnari og Doris í Búðarnesi 35,0 kg.
BLUP - Kynbótamat, nýjar einkunnir fyrir hrúta vegna vaxtarlags og fitu af sláturlömbum. BLUP- byggir á upplýsingum um afkvæmi viðkomandi hrúts og skyldra forfeðra. Hæstu einkunn í félaginu Moli 98793 frá Staðarbakka með 142 fyrir vaxtarlag, Glampi 98796 frá Staðarbakka með 126 fyrir fitu og Bassi 99033 frá Staðarbakka með 122 í heildareinkunn. Mældir og stigaðir voru 119 lambhrútar hjá félagsmönnum. Stigahæstir urðu 2 hrútar á Staðarbakka með 85 stig. 1 lambhrútur á Staðarbakka mældist með 33 mm. bakvöðva, sem er mesti bakvöðvi sem mældur hefur verið á svæði BSE hingað til, reyndar fannst annar fram í Eyjafirði.
Ómmælingar á lambhrútum undan sæðingahrútum. Hæstir af kollóttum: Stúfur 97854 - 28.4 mm. vöðvi á frekar fáum afkvæmum, Jökull 94804 - 3.19 mm. fita og Bassi 95821 - 3.7 fyrir lögun.
Hæstir af hyrndum hrútum: Bessi 99851 - 27.6 mm vöðva, Ljóri 95828 - 2.88 mm fita og Moli 93986 3.68 fyrir lögun.

  5. Önnur mál.
Gæðastýring í sauðfjárrækt strandar á Alþingi, framhaldsnámskeiðum frestað um óákveðinn tíma.
Rætt um skoðunarferðir, áhugavert að fara á Suðurland, lágmark að eyða í það tveim sólarhringum. Betra að fara að hausti.
Aðeins rætt um lambhrútakaup frá öðrum svæðum. Hugsanlega hægt að sameina hrútakaup og skoðunarferð austur í N - Þingeyjarsýslu seinni hluta september.

  6.Kosningar: Hermann Jónsson í stjórn til 3ja ára, Árni Arnsteinsson varamaður til 1 árs og Haukur Steindórsson skoðunarmaður til 2ja ára.
Allir kosnir með lófaklappi.

  7. Þór Jónsteinsson þakkaði mönnum fyrir fundarsetuna og sleit síðan fundinum. 

    ____________________ 
    Gestur Hauksson 
    fundarritari. 



    Stjórnarfundur haldinn í Skriðu 1. okt. 2002.

Stjórn kom saman til fundar í Skriðu þriðjudagskvöldið 1.okt.2002
Tilefnið var fyrirhuguð hrútakaupa- og skemmtiferð austur í Þistilfjörð nk. föstudag 4.okt. í samvinnu við Sauðfjárræktarfélagið Neista.
Samið við Val Daníelsson í Fornhaga um að keyra, kostnaður 100 þús. krónur.
Áætlaður fjöldi þátttakenda 25 - 28 manns. Kostnaður skiptist á milli félaga eftir höfðatölu. Félagsmenn greiði kr.2500 en utanfélags kr.3500. Félagið greiði það sem uppá vantar. 
    _________________________ 
    Gestur Hauksson. 


    Stjórnarfundur haldinn í Skriðu 9. des. 2002.

Stjórn kom saman til fundar í Skriðu mánudagskvöldið 9. des 2002, einnig voru mættir stjórnarmenn Fjárræktarfélagsins Neista.
Samþykkt að leggja það fyrir, á aðalfundum félagana, að sameina félögin.
Stefnt að halda aðalfund í Þelamerkurskóla og sameiginlega með Ólafi Vagnsyni.
Aðalfundi frestað fram í janúar 2003 vegna anna hjá Ólafi Vagnsyni, vegna sauðfjár-
sæðinga. 
    _________________________ 
    Gestur Hauksson 



    Aðalfundur haldinn í Þelamerkurskóla 8. janúar 2003.

Þór Jónsteinsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna, 10 félagar mættir.
Þór las yfir dagskrá fundarins og er hún svohljóðandi: 
    1. Fundarsetning 
    2. Kosning fundarstjóra og fundarritara 
    3. Yfirlit stjórnar og reikningar 
    4. Sameining félaga 
    5. Önnur mál 
    6. Yfirlit Ólafs Vagnssonar, sameiginlega m.Sauðfj.fél. Neista.

  2. Þór kosinn fundarstjóri og Gestur Hauksson fundarritari

  3. Þór flutti skýrslu stjórnar.
Starfsemi félagsins var með hefðbundnu sniði á liðnu ári og verið hefur, 2 stjórnarfundir
voru haldnir. Það helsta sem stóð uppúr var þó ferð, sem farin var með Sauðfjárræktar-
félaginu Neista austur í Þistilfjörð. Tilgangur ferðarinnar var að heilsa uppá bændur, taka
út búskapinn hjá þeim og kannski versla af þeim nokkra lambhrúta. Farið var á átta bæi og
lambhrútar skoðaðir á þeim öllum og eitthvað keypt á flestum bæjum. Þegar hrútarnir komu hingað vestur var haldið hið margumtalaða LOTTO og hrútarnir dregnir út. Svo er bara að bíða og sjá hvernig þeir reynast.
Umræða um sameiningu Sf. Skriðuhrepps og Sf. Neista fór af stað eftir þessa ferð og héldu stjórnir félagana sameiginlegan fund og ræddu málin, var þar samþykkt að leggja til á aðal-fundum félagana að sameina þau.
Fleira markvert gerðist ekki á árinu.
Hermann Jónsson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins, tekjur kr. 62.528, gjöld kr. 58.868 og
hrein eign félagsins 31.12. 2002 kr. 560.234, þeir síðan samþykktir samhljóða.

  4. Eftirfarandi tillaga kom fram um sameiningu Sauðfjárræktarfélagana í Hörgárbyggð:
"Aðalfundur Sf. Skriðuhrepps haldinn í Þelamerkurskóla 8. janúar 2003, samþykkir að félagið sameinist Sf. Neista frá og með 1. janúar 2003. Allir félagar verða sjálfkrafa félagar í nýju félagi og eignir og skuldir flytjast til hins nýja félags frá og með 1. janúar 2003."
  Tillagan samþykkt .

  5. Öðrum málum frestað þar til síðar.

  6. Ólafur Vagnsson þakkaði fyrir ánægjulega ferð austur í Þistilfjörð sl. haust.
Ólafur fór fyrst yfir skýrslur Sf. Skriðuhrepps, afurðir í félaginu þær næst mestu í sögu félagsins eða 31.2 kg. eftir hverja á. Mestu afurðir eftir hverja á voru hjá Steingerði Jósavinsdóttur í Brakanda 41.4 kg. ( 8 ær ). Hann sýndi síðan glærur með niðurstöðum úr kjötmati og fleira.

Þar sem það var samþykkt í báðum félögunum að sameina þau í eitt félag var fundi frestað þar til eftir KAFFIHLÉ. 

    __________________________ 
    Gestur Hauksson 
    fundarritari 


    Sameiningarfundur Sf. Skriðuhrepps og Sf. Neista haldinn í Þelamerkurskóla 8. jan. 2003.

Þór Jónsteinsson og Helgi B. Steinsson kosnir fundarstjórar og Gestur Hauksson fundarritari.

  1. Þór las upp drög að samþykktum fyrir sameinað Fjárræktarfélag og voru þau samþykkt, að mestu athugasemdalaust.

  2. Kosið um nafn á hinu nýja félagi.
Ff. Neisti fékk 15 atkvæði, Ff. Hörgárbyggðar fékk 8 atkvæði, auðir og ógildir voru 2.

  3. Kosningar:
Þriggja manna stjórn: Helgi B. Steinsson 20 atkv., Þór Jónsteinsson 19 atkv. og Guðmundur Víkingsson 14 atkv., aðrir fengu færri atkvæði. Dregið var á milli þeirra um lengd á stjórnarsetu, Þór til 3ja ára, Helgi til 2ja ára og Guðmundur til eins árs.
Varamenn í stjórn til eins árs: Aðalsteinn Hreinsson 16 atkv. og Gestur Hauksson 9 atkv., aðrir fengu færri atkvæði.
Skoðunarmenn til 2ja ára: Þorsteinn Rútsson 9 atkv., Hermann Jónsson 6 atkv. og
Árni Arnsteinsson 6 atkv.,aðrir færri atkv. Dregið á milli Hermanns og Árna , Hermann aðalmaður en Árni varamaður.

  4. Önnur mál.
Samþykkt að greiða styrk til félagsmanna v. sauðfjársæðinga, sem svaraði kostnaði við sæði og sæðingu í 10% af ásettum ám haustið 2002.
Félagið sjái um sýningar á veturgömlum hrútum næsta haust.

  Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið. 

    ________________________ 
    Gestur Hauksson 
    fundarritari


 
Þar með lauk tæplega 39 ára sögu Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, sem betur fer aðeins um stundarsakir því það var endurreist á 40 ára afmæli þess þann 17. mars 2004.

    Innskot vefstjóra GTS.



Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 32
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 43872
Samtals gestir: 11354
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 12:41:38
clockhere

Um félagið

Nafn:

Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps

Farsími:

Unnar Sturluson 779-0269 formaður

Afmælisdagur:

Stofnað 17. mars 1964

Heimilisfang:

Þúfnavellir

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Unnar Sturluson 462-6754 formaður

Um:

Vef- og ritstjóri heimasíðunnar er Guðmundur Skúlason s. 846-1589

Kennitala:

431008-1650

Bankanúmer:

566-04-250446

Tenglar