Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps vertu velkomin/n á heimasíðu félagsins

Fréttir 2009

    14. nóv. 2009

Gimbrar í Sandfellshaga 1 Laust fyrir kl. 8 í morgun lögðu félagar í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps í ferð austur í Öxarfjörð. Alls voru 11 í ferðinni. Tilgangur ferðarinnar var að skoða fé, fjárhús og aðstöðu svo og að kynnast bændum þar. Fyrst komum við í Sandfellshaga 1 og skoðuðum hjá Sigþóri Þórarinssyni. Næst skoðuðum við hjá Gunnari og Önnu í Sandfelli og þáðum svo hjá þeim frábæran hádegisverð. Að því búnu var farið að Klifshaga 2 og skoðað hjá þeim, Stefáni, Guðlaugu og Baldri (bónda). Þar hittum við einnig Grím Jónsson, sem segist vera elsti starfandi bóndi landsins og býr á hinum Klifshagabænum og er meðal annars þekktur fyrir langræktaðan stofn forustufjár. Áður en við ókum úr hlaði í Klifshaga buðu þau hjón Guðlaug og Stefán, uppá kaffi og snafs í gömlu fjósi, sem þau hafa nú innréttað og fengið nýtt hlutverk, sem verkstæði og vélageymsla. Þá var haldið að Hafrafellstungu og skoðað hjá þeim feðgum Karli og Bjarka, sem buðu upp á bjór á meðan gengið var um fjárhús og féð skoðað. Síðasti viðkomustaðurinn var svo Ærlækur, þar sem var skoðað hjá þeim hjónum Jóni Halldóri og Guðnýju, sem buðu svo uppá algjört veislukaffi, áður en við héldum heim, í því voru einnig allir þeir sem við heimsóttum í dag. Það er alveg óhætt að segja að þetta var mjög vel lukkuð ferð. Við sáum mjög fallegt fé og nutum í alla staði alveg frábærrar gestrisni heimamanna í Öxarfirðinum. Hafi þeir heila þökk fyrir.                                                                                                          
Hér má sjá myndir úr ferðinni.
      GTS

     2. nóv. 2009

  Stjórn Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, kom saman til fundar á heimili gjaldkera félagsins að Brakanda í kvöld. Einnig sat fundinn Stefán Lárus Karlsson á Ytri-Bægisá 2. Stefán hefur verið aðalhvatamaðurinn að því að félagið efni til skoðunarferðar í Öxarfjörð nú í nóvember. Hefur hann haft samband við Gunnar bónda í Sandfellshaga um að taka á móti okkur og skipuleggja skoðunarferð þar á fleiri bæi. Tók hann vel í það og taldi besta tímann vera um eða upp úr miðjum nóvember.
  Ákveðið var að fara í þessa ferð laugardaginn 14. nóvember n.k.
  Þeir sem ætla sér að taka þátt í þessari ferð þurfa að hafa samband við einhvern stjórnarmann hið fyrsta og tilkynna þátttöku.

    GTS

    4. sept 2009

  Í kvöld kom stjórn Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps saman til fundar á Staðarbakka. Verið var að ræða um starfið í haust, sem verður nú mjög lítið þar sem ákveðið var að halda enga hrútasýningu í haust á veturgömlum hrútum, en það hefur verið fastur liður í starfsemi félagsins um langt árabil. Ástæðan er sú að mikil óánægja var með dómara á sýningunni í fyrra haust, þannig að ljóst er að annað stærsta búið í félaginu myndi ekki taka þátt í sýningu nú, það er Þúfnavellir. Því var ákveðið að hafa ekki sameiginlega sýningu nú, en að sjálfsögðu er einstökum félagsmönnum í sjálfsvald sett hvort þeir fái ráðunaut til að dæma sína hrúta. 
  Það má deila um hvort sýning á veturgömlum hrútum hafi kynbótalegt gildi. En um hitt verður varla  deilt, að það að eyða einum degi á haust í að koma saman með veturgamla hrúta til að þukla þá og skoða og skeggræða um kosti þeirra og galla, svo og ræða ýmislegt fleira er varðar sauðfjárræktina, eða bara sveitaslúðrið, er bæði hressileg tilbreyting og skemmtun. Það er því skoðun þess sem hér ritar að lífið í sveitinni sé eftir ögn fábreyttara og við sjáum allavaga á bak einni skemmti og menningarsamkomu í sveitinni okkar.
 Fundargerðina má sjá undir: Fundargerðir / Stjórnarfundir.
  GTS

    9.apríl 2009

Félagar í Sf. Hólasóknar og Sf. Frey
 
  Í dag kom hér í heimsókn og skoðunarferð til félaga í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps, tuttugu manna hópur félaga í Sauðfjárræktarfélagi Hólasóknar og Sauðfjárræktarfélaginu Frey í Eyjafjarðarsveit. Fyrir hádegi heimsóttu þau Brakanda og Ytri Bægisá 2. Þaðan lá svo leið þeirra að Þúfnavöllum, þar sem ábúendur buðu upp á hádegisverð, sem að sjálfsögðu var lambalæri með viðeigandi meðlæti. Hópurinn endaði svo ferð sína á því að fara að Staðarbakka, þar sem hann þáði síðdegiskaffi eftir að hafa farið þar í fjárhús, eins og á hinum bæjunum. 
  Það er alltaf af því bæði nokkurt gagn og gaman, þegar fjárræktarfélög heimsækja hvort annað.

    31. mars 2009

Ólafur G Vagnsson með heiðursskjalið  Í kvöld var aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps haldinn á Þúfnavöllum. Þar mættu 11 félagar auk ráðunautanna Ólafs G Vagnssonar og Sigurðar Þórs Guðmundssonar. Þetta var um flest hefðbundinn aðalfundur með skýrslu formanns, framlagningu reikninga og  ráðunautur kynnti niðurstöður úr skýrsluhaldi fálagsmanna fyrir síðasta ár. Á fundinum var Ólafi G Vagnssyni afhent heiðursskjal í þakklætisskyni fyrir vel unnið áratugastarf í þágu sauðfjárræktar félagsmanna og í skjalinu kemur einnig fram að hann hafi verið gerður að heiðursfélaga í félaginu. Þá voru Sigrúnu og Guðmundi á Staðarbakka veittur farandbikar félagsins og verðlaunapeningur fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginu á síðasta hausti.

Sigrún og Guðmundur taka við bikarnum úr hendi Guðmundar formanns

 

 

Nánar má fræðast um fundinn undir: Fundargerðir>Aðalfundir.

Hér má sjá myndir frá fundinum. 

   
 18. mars 2009.      Tilkynning!

  Aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, verður haldinn á Þúfnavöllum þann 31. mars nk. og hefst hann kl. 20:30. Auk venjulegra aðalfundarstarfa mun Sigurður Þór Guðmundsson ráðunautur, mæta á fundinn með niðurstöður úr skýrsluhaldi félagsmanna fyrir síðasta ár. Þá verður veittur bikar og verðlaunapeningur félagsins fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginu haustið 2008.    16. mars 2009

  Í kvöld kom stjórn Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps saman til fundar á Þúfnavöllum. Þar var verið að undirbúa aðalfund félagsins, sem stendur til að halda um næstu mánaðarmót. Einnig var rætt um beiðni Sauðfjárræktarfélags Hólasóknar í Eyjafirði, um að fá að koma í skoðunarferð og heimsækja sem flesta bæi hér í félaginu. Þá var rætt um að halda hrútaspilakvöld líkt og gert hefur verið á vegum félagsins tvö undanfarin ár.
  Sjá má fundargerðina hér á síðunni undir: Fundargerðir>stjórnarfundir.

Flettingar í dag: 17
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 163808
Samtals gestir: 42873
Tölur uppfærðar: 16.1.2019 07:47:42
clockhere

Um félagið

Nafn:

Sauðfjárræktarfélag Skriðuhrepps

Farsími:

Stefán Lárus Karlsson 865-1777 formaður

Afmælisdagur:

Stofnað 17. mars 1964

Heimilisfang:

Ytri Bægisá ll

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

Stefán Lárus Karlsson 462-5897 formaður

Um:

Vef- og ritstjóri heimasíðunnar er Guðmundur Skúlason s. 846-1589

Kennitala:

431008-1650

Bankanúmer:

566-04-250446

Tenglar